Uppkaup húsa í Grindavík, mannshvarf í Dyflinni og kosningar í Indónesíu
Spegillinn - Ein Podcast von RÚV
Kategorien:
Þórkatla skal það heita, eignaumsýslufélagið sem Grindvíkingum býðst að selja íbúðarhúsnæði sitt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Drög að lögum um þetta voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Yfir 300 umsagnir bárust um drögin, nær undantekningarlaust frá Grindvíkingum, sem hafa ýmislegt við þau að athuga. Það á sérstaklega við um fimm atriði og athugasemdir við þau liggja sem rauður þráður í gegnum flestar umsagnirnar. Ævar Örn Jósepsson ræddi þessi atriði við Sigurð Orra Hafþórsson, lögmann Húseigendafélagsins. Lögregla í Dyflinni greindi frá því gær að tvö nafnlaus bréf hefðu borist með nýjum ábendingum sem tengjast hvarfi Jóns Þrastar Jónssonar í borginni fyrir fimm árum. Hún hefur girt af svæði í almenningsgarði í borginni, þar sem jarðneskra leifa Jóns var leitað í gær og leit heldur áfram á morgun. Anna Marsibil Clausen dagskrárgerðarkona hefur fylgst vel með þessu máli og vinnur að hlaðvarpsþáttaröð um það í samvinnu við kollega sinn hjá írska ríkisútvarpinu, Liam O'Brian. Ævar Örn ræddi við hana um þessar nýjustu vendingar. Prabowo Subianto, varnarmálaráðherra Indónesíu og fyrrverandi hershöfðingi, er svo gott sem öruggur um að verða næsti forseti landsins. Endanleg niðurstaða verður ekki kynnt fyrr en í næsta mánuði, en svokölluð hraðtalning sýnir að hann hafi tryggt sér meirihluta atkvæða, - um það bil 57 prósent, - þannig að ekki þurfi að kjósa að nýju vegna tveggja efstu. Einnig var kosið til þings og borgar- og sveitarstjórna og þykja þetta með flóknari kosningum sem haldnar hafa verið enda landið bæði víðfeðmt og fjölmennt. Ásgeir Tómasson segir frá.