Sinubruni og átök vopnaðra manna í Reykjavík

Spegillinn - Ein Podcast von RÚV

Spegillinn, 23. mars 2023. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Mark Eldred. Stjórn útsendingar: Valgerður Þorsteinsdóttir. Sina brann á nærri 100 hekturum suður af Straumsvík í dag. Útihús og bíll urðu eldinum að bráð, slökkvilið er enn að störfum. Kristín Sigurðardóttir sagði frá og talaði við Finn Hilmarsson varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Björgunarsveitarmenn hafa lengi óttast að illa gæti farið við fossinn Glym í Hvalfirði þar sem banaslys varð í gær. Þeir vilja sjá bættar gönguleiðir. Alma Ómarsdóttir talaði við Sigurð Axel Axelsson formann Björgunarfélags Akraness. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að ekki verði ráðist í skattkerfisbreytingar sem bitni á launafólki í fjármálaáætlun næstu fjögurra ára sem kynnt verður í næstu viku. Talið er að megináhersla verði lögð á hvernig draga megi úr verðbólgunni. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir segir frá. Almannavarnir afléttu óvissustigi vegna COVID í dag. Sjúkdómurinn sjálfur er þó hvergi á förum. Róbert Jóhannsson tók saman. Íslenska hugvitsfyrirtækið Oculis var skráð í bandarísku kauphöllina í gær. Valur Grettisson talaði við Einar Stefánsson, augnlækni annan stofnanda Oculis. ---------------- Lögregla hefur ekki staðfest að gengjastríð sé farið af stað en talar um að andrúmsloftið hafi breyst, síðast í gær voru menn handteknir í miðbæ Reykjavíkur eftir átök þar sem vopn komu við sögu. Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands segir vopnaburðinn og beitinguna endurspegla að svo virðist sem sumir yngri karlar telji réttlætanlegt að beita ofbeldi, bera og jafnvel grípa til vopna til að mæta ögrun eða leysa úr ágreiningi. Anna Kristín Jónsdóttir ræddi við hann. Talið er að allt að hálf milljón Ísraelsmanna hafi tekið þátt í mótmælaaðgerðum í dag gegn áformum stjórnvalda um að draga úr völdum dómstóla landsins. Mótmælin hafa staðið linnulítið síðastliðnar ellefu vikur. Ásgeir Tómasson tók saman og heyrist í Amir Ohana þingforseta, Iris Cohen-Aida og Galia Aloni. Ákvörðun Ellýjar Guðmundsdóttur, fyrrverandi borgarritara, að greina árið 2017 á opinskáan hátt frá reynslu sinni af alzheimer-sjúkdómnum vakti mikla athygli og breytti lífi Ellýjar og eiginmanns hennar, Magnúsar Karls Magnússonar læknis. Magnús á undanförnum árum verið virkur í starfi Alzheimersamtakanna - hann var nýlega tilnefndur sem fulltrúi Íslands í vinnuhóp á vegum evrópsku alzheimersamtakanna, Björn Malmquist ræddi við Magnús í Brüssel.