Leiðtogafundur, sjúkraflug, hlýnun Jarðar og bandarískt skuldaþak
Spegillinn - Ein Podcast von RÚV
Kategorien:
Spegillinn 17. maí 2023 Umsjónarmaður: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Mark Eldred Stjórn fréttaútsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir Engar bindandi yfirlýsingar er að finna í fjórþættri samþykkt leiðtogafundar Evrópuráðsins, sem lauk síðdegis í dag. Þetta segir lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Rætt við Odd Þórðarson fréttamann og Kára Hólmar Ragnarsson lektor. Rússneskir tölvuþrjótar segja að þeim hafi tekist vel upp í árás á íslensk tölvukerfi, þótt ekkert teljandi tjón hafi orðið á meðan á leiðtogafundinum stóð. Anton Már Egilsson forstjóri Syndis segir góðan undirbúning hafa komið í veg fyrir stórtjón. Veikir og slasaðir þurfa að bíða í 84 mínútur að meðaltali eftir sjúkraflugi með þyrlu. Björn Gunnarsson, yfirmaður sjúkraflugs á Akureyri segir þetta helst bitna á þeim sem búa fjærst höfuðborginni. Sameinuðu þjóðirnar telja næsta öruggt að árin 2023 til 2027 verði heitasta fimm ára tímabil frá því mælingar hófust. Fulltrúar Einingarlistans á danska löggjafarþinginu vilja að þungunarrof verði heimilað allt að 22. viku meðgöngu. Talskona flokksins segir málið snúast um að konur ráði yfir eigin líkama. ----- Í ávarpi sínu að fundinum loknum sagði Katrín Jakobsdóttir fernt standa upp úr í lokaályktuninni - og nefndi þar fyrst til sögunnar að kveðið sé á um að settur verði á laggirnar sérstakur dómstóll, sem getur dæmt ríki vegna innrásar í önnur ríki. Slíkur dómstóll gæti unnið eftir margumræddri tjónaskrá vegna innrásarinnar í Úkraínu. Ævar Örn Jósepsson ræðir við Rósu Björk Brynjólfsdóttur, verkefnastjóra alþjóðamála í forsætisráðuneytinu um þetta og aðrar niðurstöður fundarins. Denys Maliuska, dómsmálaráðherra Úkraínu, sem var á meðal gesta á leiðtogafundinum, segir tjónaskrána sem leiðtogar Evrópuráðsins komu sér saman um á fundinum í Hörpu, og lokayflýsinguna yfirleitt, afar mikilvægt plagg. Þetta sé þó aðeins fyrsta skrefið í löngum og torfærum leiðangri. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur aflýst fyrirhugaðri heimsókn til Papúa Nýju-Gíneu og Ástralíu í vikunni vegna alvarlegra efnahagserfiðleika heima fyrir. Náist ekki samkomulag við Repúblikana um að hækka skuldaþak ríkissjóðs fyrir 1. júní blasir mögulegt greiðslufall við.