Enn rýming á Austfjörðum og ný viðmið í fjárveitingum til háskóla
Spegillinn - Ein Podcast von RÚV
Kategorien:
Appelsínugul veðurviðvörun vegna rigningar á Austfjörðum og rýming á Seyðisfirði er enn í gildi. Hringveginum hefur verið lokað frá Skaftafelli að Jökulsárlóni vegna veðurs. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra segir að áform um sameiningu framhaldsskóla á Akureyri breytist fáist meira fé. Karlmaður á fimmtugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í átta ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur sinni. Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að skýra þurfi betur skilgreininguna á nánu sambandi í hegningarlögum, sem var breytt 2016 til að undirstrika hve alvarlegt heimilisofbeldi væri. Skýrsla Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að veikindadögum hefur fjölgað verulega á síðustu árum innan Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Starfsfólk hefur upplifað vanvirðingu, ofbeldi og kynþáttafordóma; þá hefur hljóðfæraleikari stefnt hljómsveitinni fyrir brottrekstur. Borgarfulltrúar eru ekki á einu máli um hvort setja allsherjar símabann í grunnskólum Reykjavíkur. Belgíski söngvarinn Lou Deprijck sem er hvað þekktastur fyrir að hafa samið pönk smellinn Ça plane pour moi er látinn ------- Það kólnar mjög milli Indlands og Kanada. Viðræður um fríverslunarsamning þeirra á milli eru í uppnámi eftir að Justin Trudeau sagði að hugsanleg tengsl væru milli útsendara indversku stjórnarinnar og morðs á kanadískum ríkisborgara, Hardeep Singh Nijjar. Rektor Háskóla Íslands telur að boðaðar breytingar á fjármögnun háskólanna hafi talsverð áhrif á skólastarfið. Horft sé til fleiri þátta en áður og veigamesta breytingin sú að fé fylgi einingum sem nemendur ljúka og skólinn verði að hlú að þeim. Meira en 150 þjóðarleiðtogar eru komnir til New York-borgar vegna ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, með tilheyrandi röskun fyrir borgarbúa. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Jón Þór Helgason. Stjórn útsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir