Eldgos á Reykjanesskaga, heitavatnslaust á Suðurnesjum

Spegillinn - Ein Podcast von RÚV

8. febrúar 2024 Eldgos hófst skammt frá Svartsengi klukkan sex að morgni 8. febrúar. Sex tímum síðar hafði hraun runnið yfir heitavatnslögnina, Njarðvíkuræðina, frá Svartsengi til þéttbýlisins á Suðurnesjum og eyðilagt hana, með þeim afleiðingum að um 30.000 manns eru eða verða fljótlega án húshitunar og heits vatns og vegna þessa var lýst yfir neyðarstigi á öllum Suðurnesjum. Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir ræðir stöðuna við Víði Reynisson, sviðsstjóra hjá Almannavörnum. Strax um hádegisbil var þrýstingur á hitaveitunni á Reykjanesskaga sums staðar orðinn svo lítill að það var nánast orðið heitavatnslaust í einhverjum hverfum í Reykjanesbæ, og það sama gildir um Voga, og Suðurnesjabæ, það er að segja Sandgerði og Garð, að einhverju leyti í það minnsta, samkvæmt heimildum fréttastofu. Ævar Örn ræðir við Magnús Stefánsson bæjarstjóra í Suðurnesjabæ. Gosið hófst af miklum krafti um klukkan sex að morgni, en verulega var farið að sljákka í því strax upp úr hádegi. Talað hefur verið um að þetta gos minni mjög á þau gos sem á undan eru gengin á Reykjanesskaga síðustu misseri, og þá sérstaklega það sem varð 18. desember 2023. Einhver munur er þó á þessu gosi og öðrum - Ævar Örn ræðir við Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðing og fagstjóra hjá Veðurstofunni. Umsjón: Ævar Örn Jósepsson Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon