Ósonlaginu reddað en millilent í öðrum umhverfisvanda

Spegillinn - Hlaðvarp - Ein Podcast von RÚV

Það skiptir ekki máli hvernig veðrið er úti það er hægt að kæla það sem þarf að kæla og frysta það sem þarf að frysta. Þetta er gert með kælikerfum og í flest þeirra eru notaðar flúoraðar gastegundir, svokölluð F-gös. Þjóðum heims tókst með Montreal-bókuninni frá árinu 1987 að stoppa í gatið í ósonlaginu og þessi F-gös voru lykillinn að þeim árangri, þau komu í stað freons og annarra ósoneyðandi efna. F-gösin kærkomnu reyndust þó ekki gallalaus, það lá fyrir frá upphafi að þau væru vandræðagemsar og nú er unnið að því að skipta þeim út, einnig á grundvelli Montreal-bókunarinnar. En hvað er að þeim? F-gösin hafa stórkostlegan hnatthlýnunarmátt, geta verið allt að því 23 þúsund sinnum öflugri gróðurhúsalofttegundir en koltvísýringur og á tímum loftslagsbreytinga er það ekkert sérstaklega vinsæll eiginleiki. Arnhildur Hálfdánardóttir ræðir við Ísak Sigurjón Bragason, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun.