Yoga Nidra með Lísu Briem
Landspítali hlaðvarp - Ein Podcast von Stefán Hrafn Hagalín

Yoga nidra er leidd djúpslökun sem losar um streitu, bætir svefn, vinnur gegn neikvæðum hugsanamynstrum og bætir jafnvægi. Nidra þýðir svefn og yoga einingu og þannig merkir "yoga nidra" í rauninni vakandi svefn þar sem vitundin er vakandi en líkaminn fær djúpa hvíld og hugurinn hvílir í kyrrð. Þessi aðferð getur hjálpað til við að losa um þá spennu sem fylgir hraða og annríki nútímans. Samskiptadeild laumaði sér á dögunum í jógatíma hjá Guðnýju Elísabetu Briem Óladóttur, sem flestir á Landspítala þekkja betur sem Lísu Briem. Hún starfar á skrifstofu forstjóra í Skaftahlíð og hefur þar ýmis verkefni á sinni könnu, en brýtur upp vinnudaginn vikulega og heldur jógatíma fyrir vinnufélagana í hádeginu. Jógatíminn var haldinn í hermisetri menntadeildar í Skafathlíð og eins og glögglega má sjá var mannskapurinn í tímanum afskaplega slakur og vær. Líka æfingadúkkan í rúminu! Þess má geta að sálfræðingar geðþjónustu og mannauðsráðgjafar hjá Landspítala vinna nú að verkefninu "Saman gegnum Kófið" fyrir starfsfólk spítalans. Það felst meðal annars í því að safna saman á einn stað fræðsluefni, uppbyggilegum bjargráðum og leiðum til að vinna með það álag fyrir líkama og sál og krefjandi aðstæður sem framundan er í eftirmála Covid-19. Jógahlaðvarpið með Lísu Briem talar skemmtilega við þetta verkefni. Sjá nánar: https://www.landspitali.is/samangegnumkofid Stjórnandi Hlaðvarps Landspítala er Stefán Hrafn Hagalín, en upptöku annast Ásvaldur Kristjánsson. Báðir starfa hjá samskiptadeild Landspítala. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en einnig í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict.