Keli ljósmyndari: Ekki bara fjallgöngur, peningasmygl og stríðsátök, heldur líka Mogginn, klínískar myndatökur og hugsjónastarf

Landspítali hlaðvarp - Ein Podcast von Stefán Hrafn Hagalín

Þorkell Þorkelsson er ljósmyndari Landspítala. Alltaf kallaður Keli. Í hlaðvarpi Landspítala segir okkar maður frá því hvernig hann myndaði bumbur 4 ára að aldri, gekk sem táningur á Mont Blanc í strigaskóm og fékk seinna starfsfólk Moggans til að smygla fyrir sig dollurum í ársskýrslu Seðlabankans til Afríku. Keli hefur átt viðburðaríkan starfsferil með óteljandi hápunkta. Hann hefur myndað jarðarfarir glæpamanna á Írlandi og skrásett hjálparstarf og stríðsátök víða um veröld. Hin síðari ár hefur hann meðal annars flogið með myndasmiði til Indlands, Kambódíu og Madagaskar. Kappinn tilheyrir skipulagslega vísindadeild, sem er á sviði framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga. Helstu verkefni hans á Landspítala lúta að klínískum myndatökum, en samhliða vinnur hann talsvert með samskiptadeild við að mynda viðburði, starfsemi og mannauð spítalans með ýmsum hætti. Hann skautar hérna yfir ferilinn og segir okkur í leiðinni smávegis frá manninum bak við linsuna. Það er Stefán Hrafn Hagalín sem ræðir við Kela. Upptöku annaðist Ásvaldur Kristjánsson. Báðir starfa hjá samskiptadeild Landspítala. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en líka í streymisveitunum Spotify og Apple iTunes, ásamt hlaðvarpsveitunum Simplecast og Podcast Addict.