Hjúkrun - Marta Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og formaður hjúkrunarráðs

Landspítali hlaðvarp - Ein Podcast von Stefán Hrafn Hagalín

Ísfirðingurinn Marta Jónsdóttir var fyrsta konan til að keppa löglega í ólympískum hnefaleikum og starfaði áður sem dyravörður á hinum goðsagnakennda bar Sirkus við Klapparstíg í Reykjavík. Eftir hefðbundna útúrdúra æskufólks í vinnu og námi smellti hún sér hins vegar í hjúkrun og er í dag verkefnastjóri hjá menntadeild Landspítala auk þess að vera formaður hjúkrunarráðs og taka stöku vaktir í faginu. Hlutverk hjúkrunarráðs er að vera faglegur ráðgefandi og upplýsandi vettvangur fyrir hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og stjórnendur jafnt spítalans sem annarra eininga í heilbrigðiskerfinu. Hjúkrunarráð tekur þátt sömuleiðis í fjölbreytni þróunarvinnu innan spítalans. Marta er með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) og vinnur nú að annarri meistaragráðu í stjórnun, ásamt því að hafa lagt drög að doktorsnámi í náinni framtíð. Það er trauðla hægt að finna skemmtilegri viðmælanda um hjúkrun eins og Stefán Hrafn Hagalín og Ásvaldur Kristjánsson komust að í nýjasta hlaðvarpi Landspítala. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á vef spítalans og helstu samfélagsmiðlum, en auðvitað líka í streymisveitunni Spotify og hlaðvarpsveitunum Simplecast og Podcast Addict. Unnið er að tengingu við Apple iTunes.