28 | Áhrif COVID19, Britta Nielsen og er stríðið í Afganistan á enda?
Heimskviður - Ein Podcast von RÚV - Samstags
Kategorien:
Í tuttugasta og áttunda þætti Heimskviðna verður ekki komist hjá því að ræða um áhrif COVID19 veirunnar á samfélög og þjóðir heims. Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um ferðabann frá Evrópu, fjármálamarkaðir voru í frjálsu falli, Danir skelltu í lás og íþróttaheimurinn og skemmtanaiðnaðurinn fer ekki varhluta af áhrifum veirunnar. En þá er einnig fjallað um aðra hluti, enda hætta hjól heimsins ekki að snúast. Í lok síðasta mánuðar var sögulegt samkomulag undirritað milli Bandaríkjastjórnar og Talíbana, sem kveður á um að herlið Bandaríkjanna og Nató yfirgefi landið eftir rúmlega átján ára viðveru. Er friður í augsýn, eða eru Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra að ganga burt frá rjúkandi rústum? Guðmundur Björn fjallar um málið og ræðir við Brynju Huld Óskarsdóttur, varnarmálafræðing og fyrrum starfsmann NATÓ í Afganistan. Hin danska Britta Nielsen var á dögunum dæmd til rúmlega sex ára fangelsisvistar fyrir umfangsmikinn fjárdrátt úr sjóðum danska félagasmálaráðuneytisins. En málinu er ekki lokið. Nú er verið að rétta yfir þremur börnum Nielsen. Málið snýst um hvort þau hafi vitað hvaðan illa fengna féð kom, eða hvort þau hafi einfaldlega verið saklausir þjófsnautar. Birta Björnsdóttir segir frá. Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.