Telenor sektað og nýr Doctor Who

Hádegið - Ein Podcast von RÚV

Við hefjum þáttinn á samkeppnismálum. Norska fjarskiptafyrirtækið Telenor hlaut á dögunum sekt upp á 1,2 milljarða norskra króna, eða því sem nemur tæplega 17 milljörðum íslenskra króna. Sektin er um fimmfalt hærri en árleg framlög til eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og aldrei áður hefur norskt fyrirtæki hlotið jafn háa sekt frá stofnuninni. Við ræddum við Árna Pál Árnason, fulltrúa Íslands í stjórn eftirlitsstofnunarinnar um sektina og hlutverk ESA. Ncuti Gatwa er fjórtándi leikarinn sem fer með hlutverk Doktorsins í sjónvarpsþáttaröðinni Doctor Who, eða Tímaferðalangnum. Allir forverar hans í hlutverkinu, í fimmtíu ára sögu þáttanna, hafa verið hvítir en öðru máli gegnir um Gatwa sem er fæddur í Rúanda og alinn upp í Skotlandi. Hann tekur við af Jodie Whitaker, sem var fyrsta konan sem lék Doktorinn. Við fjöllum um leikaraskiptin, þáttinn og mikilvægi birtingarmynda í afþreyingarefni í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.