NFT og börn undir fátæktarmörkum í Evrópu

Hádegið - Ein Podcast von RÚV

Heimurinn stendur ekki í stað, kannski sem betur fer, og tæknin ekki sömuleiðis. Sum fyrirbæri sem við heyrum um í dag úr heimi tækninnar og vísindanna eru svo furðuleg að maður einfaldlega botnar ekkert í þeim. Eitt af þeim eru svokölluð NFT, sem Alti Fannar Bjarkason ræddi stuttlega í örskýringu í maí síðastliðnum. Þetta eru stafræn skilríki, einhverskonar þó, og nei við erum ekki að tala um stafrænt ökuskirteini hér. Þetta er miklu flóknara en svo, og til að ræða NFT nánar er Kristjana Björk Barðdal, sérfræðingur Hádegisins í öllu því sem viðkemur nýjustu tækni og vísindum. Í nýlegri skýrslu Barnaheilla um fátækt meðal barna er dregin um dökk mynd af vaxandi barnafátækt í Evrópu. Á Íslandi eru líkurnar á því að börn alist upp við fátækt og félagslega einangrun einna minnstar af þeim fjórtán Evrópuríkjum sem rannsókn samtakanna tekur til. Þrátt fyrir það benda samtökin hér á landi á ýmislegt sem betur megi fara. Auka þurfi jöfnuð innan menntakerfisins og tryggja börnum húsnæðisöryggi svo dæmi séu nefnd. Þá þurfi að setja opinbera stefnu eða áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. En Ísland er eina þátttökuríkið sem ekki hefur slíka stefnu nú þegar. Við könnum stöðuna betur í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.