Átök um drykkjarvatn yfirvofandi og stýrivaxtahækkun SÍ
Hádegið - Ein Podcast von RÚV
Kategorien:
Ný skýrsla frá Evrópusambandinu varar við yfirvofandi átökum í Miðausturlöndum vegna skorts á drykkjarvatni. Tyrkir, Sýrlendingar og Írakar deila mikilvægum vatnslindum sem fara ört þverrandi. Sérfræðingar segja að hættan felist ekki síst í örum fólksflutningum eftir því sem deilur um þessa auðlind harðna á svæðinu, þá muni loftslagsbreytingar aðeins auka flóttamannastrauminn til Evrópu. Gunnar Hrafn Jónsson, blaðamaður og sérfræðingur í málefnum miðausturlanda kíkti við í Hádeginu. Í ljósi vaxandi verðbólgu ákvað Peningastefnunefnd Seðlabankans að hækka í dag stýrivexti um núll komma sjötíu og fimm prósentustig, líkt og spár höfðu raunar gert ráð fyrir að undanförnu. En Seðlabankinn spáir fimm prósenta verðbólgu á þessu ári, sem er tvöfalt verðbólgumarkmið bankans. Bankinn gerir þá ráð fyrir enn meiri verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi, eða fimm komma átta prósentum. Ýmsir höfðu þó kallað eftir því að bankinn færi ekki þessa stýrivaxtahækkunar-leið - eins og forseti Alþýðusambands Íslands - sem sendi Peningastefnunefnd bréf þess efnis í gær. Í seinni hluta þáttarins ræddi Már Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, við okkur um tildrög og áhrif vaxtahækkunarinnar. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.