EKKERT RUSL - Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair ræðir um flugbransann og umhverfismál

Að fljúga til og frá New York héðan samsvarar því að fólksbíl sé ekið fjóra hringi í kringum Ísland út frá CO2 losun á hvern flugfarþega. En eins og fram kemur í þessum þætti EKKERT RUSL þá er talið að flugumferð í heiminum muni tvöfaldast á næstu tuttugu árum og því leikur þáttastjórnendum forvitni á að vita hvað flugbransinn sé að gera út frá umhverfissjónarmiðum varðandi þessa auknu eftirspurn og flugumferð til framtíðar. Til þess að skrafa um þetta fengu þær til sín Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair. Hann er þeirrar skoðunar að stjórnvöld í hverju landi eigi að búa til hvata fyrir fyrirtækin til þess að þau fari í nauðsynlegar aðgerðir í þeim tilgangi minnka kolefnislosun en segir lykilþáttinn í fluggeiranum vera þróun sjálfbærs eldsneytis. Þar liggi mestu áhrifin sem skipt geta máli og fært nálina, eins og Bogi orðar það.

Om Podcasten

Ruslið okkar kemur upp um okkur segja sérfræðingarnir. EKKERT RUSL er að vonum skemmtilegt og lifandi hlaðvarp um umhverfismál í umsjón Lenu Magnúsdóttur, sem hefur verið umhverfissinni frá fæðingu og Margréti Stefánsdóttur, sem er ekki beint umhverfissinni en er öll af vilja gerð að læra. Við fáum til okkar skemmtilega og jafnvel óvenjulega gesti í samhengi við umhverfismál sem og viðmælendur sem þekkja hvað best til málanna. Umhverfisvernd er heita kartaflan í dag – flestir hafa eitthvað til málanna að leggja, eða vilja það að minnsta kosti. Það er ekki nóg að kaupa Teslu og telja sig umhverfisverndarsinna - það þarf víst aðeins meira til. Kannski slæðast nokkrir fræðslumolar með inn á milli í þessu hlaðvarpi til þess að hjálpa venjulegum íslenskum heimilum að bæta sig í umhverfisvernd. Við sitjum víst öll í sömu súpunni og þurfum að hysja upp um okkur. Við getum þetta saman.