11. EKKERT RUSL - Guðný hjá SoGREEN sem framleiðir glænýja lausn fyrir fyrirtæki til þess að kolefnisjafna starfsemina. Gunnar Sveinn hjá Deloitte um aukna kröfu um kolefnisbókhald hjá fyrirtækjum.

Í þættinum segir Guðný Nielsen einn stofnenda SoGREEN okkur frá íslenskri lausn sem framleiðir kolefniseiningar með því að mennta stúlkur í lágtekjuríkjum - 132 milljónir stúlkna ganga ekki í skóla. „Stúlkur í þróunarríkjum giftast margar ungar og eignast börn löngu áður en það er tímabært - ástæðan er mikil fátækt. SoGreen er fyrsta fyrirtækið í heiminum sem hefur þróað lausn í loftslagsmálum sem snýr að menntun stúlkna í lágtekjuríkjum og mætir þeim síauknu kröfum að fyrirtæki þurfa að kolefnisjafna starfsemi sína,“ segir Guðný Nielsen stofnandi SOGREEN en hún er ein fjögurra kvenna sem hefur þróað lausnina. „Þannig valdeflast stúlkurnar og geta tekið ákvarðanir um það hvenær þær gifta sig og eignast börn. Með Guðnýju er Gunnar Sveinn Magnússon en hann hefur starfað með SoGreen að þessari þróun sem yfirmaður sjálfbærni og loftslagsmála hjá Deloitte á Íslandi. Hann segir reglur varðandi kolefnisjöfnun séu í auknum mæli að þrengja að fyrirtækjum og þau verði að fara að huga að þessum málum núna því það styttist í hert regluverk sem snýr að Evrópu og tekur gildi 1. Janúar 2023.

Om Podcasten

Ruslið okkar kemur upp um okkur segja sérfræðingarnir. EKKERT RUSL er að vonum skemmtilegt og lifandi hlaðvarp um umhverfismál í umsjón Lenu Magnúsdóttur, sem hefur verið umhverfissinni frá fæðingu og Margréti Stefánsdóttur, sem er ekki beint umhverfissinni en er öll af vilja gerð að læra. Við fáum til okkar skemmtilega og jafnvel óvenjulega gesti í samhengi við umhverfismál sem og viðmælendur sem þekkja hvað best til málanna. Umhverfisvernd er heita kartaflan í dag – flestir hafa eitthvað til málanna að leggja, eða vilja það að minnsta kosti. Það er ekki nóg að kaupa Teslu og telja sig umhverfisverndarsinna - það þarf víst aðeins meira til. Kannski slæðast nokkrir fræðslumolar með inn á milli í þessu hlaðvarpi til þess að hjálpa venjulegum íslenskum heimilum að bæta sig í umhverfisvernd. Við sitjum víst öll í sömu súpunni og þurfum að hysja upp um okkur. Við getum þetta saman.